Konu hefur verið gert með dómi að flytja sig og sitt hafurtask úr íbúð hér í borg en það var gert að kröfu nágranna hennar. Konan, sem hefur glímt við heilsubrest, hafði flutt inn í íbúðina í september í fyrra. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur.

Um er að ræða fjöleignarhús með sex íbúðum en síðan konan flutti inn hefur lögregla ítrekað verið kölluð í íbúð hennar til að skakka leika. Bæði hefur það verið vegna samkvæma sem þar hafa verið haldin og vegna þess að hundur hennar hefur gelt í tíma og ótíma.

Tveimur mánuðum eftir að konan flutti inn sendi Húseigendafélagið henni aðvörun vegna hávaða og var það gert á nýjan leik í janúar 2020. Kom þar fram að partýstand væri mikið og ítrekað gerðist það að gestir tækju í hurðarhúna annarra íbúða og reyndu að komast inn í þær. Væru sambýlishættir við hana með öllu ólíðandi í fjölbýli.

Í málsatvikalýsingu málsins er tæplega þrjátíu tilvika getið þar sem lögregla var kölluð til vegna hávaða frá íbúðinni eða gestum hennar. Frá því að málið var höfðað hafði bæst við í þann hóp. Reglulega hafi verið haldin dóppartý í íbúðinni og að það kæmi fyrir að hundurinn gelti linnulaust tímunum saman. Umrædd útköll áttu sér stað á tæpum níu mánuðum.

Of heilsuveil til að bregðast við

Konan byggði málsvörn sína á því að hávaðann mætti rekja til dóttur sinnar, sem væri í neyslu, og fyrrverandi sambýlismanns síns. Sjálf hefði hún farið í skurðaðgerð vegna heilaæxlis í byrjun árs og skynjaði sökum þess umhverfi sitt ekki nægilega. Þá hefði hún einnig þurft að fara í aðgerð í lok árs 2019 vegna umferðarslyss sem hún lenti í sumarið 2019.

„Meginástæða þeirra vandkvæða sem stafað hafi frá stefndu sé annars vegar sambúð með ofbeldismanni sem nú sé fluttur út, en hún hafi lagt fram kæru á hendur honum fyrir ofbeldi, og hins vegar hegðun dóttur stefndu, sem sé í mikilli óreglu og fíkniefnaneyslu, en hún hafi fengið að búa hjá stefndu gegn því að hún yrði allsgáð. Því miður hafi það ekki gengið eftir og hafi dóttirin ítrekað haldið „partý“ ásamt fyrrum sambýlismanni stefndu, sem hafi farið verulega úr böndunum og hafi stefnda ekki ráðið við eitt né neitt í þessum málum og hafi mótmæli hennar verið þögguð fljótt niður og heilsa hennar ekki leyft frekari aðgerðir af hennar hálfu,“ segir í málsástæðukafla konunnar. Ástandið hefði skánað til muna eftir að maður inn flutti út og dóttir hennar flutti til annars lands.

Flytji innan mánaðar og selji innan þriggja

Í niðurstöðu dómsins var talið ósannað að heilsa hennar hefði verið svo bágborin að hún hefði ekki getað gripið til aðgerða. Sjúkraskrá hennar hafði verið lögð fyrir dóminn en að mati dómara málsins hefði þurft að leiða fram lækna sem vitni til að færa sönnur á það.

Að mati dómsins voru lagaskilyrði uppfyllt til að gera konunni að selja íbúð sína. Hún hafði ekki aflað samþykkis fyrir því að halda hund í íbúðinni og þá gerðist það reglulega að veisluhald hefðist að kvöldi og myndi ekki ljúka fyrr en á hádegi næsta dag. Ótti við íbúa íbúðarinnar og gesti hefði síðan í einhverjum tilfellum orðið til þess að fólk hefði veigrað sér við að kalla lögreglu til og að það forðaðist sameignina.

Af þeim sökum féllst dómurinn á að konan hefði brotið gegn ákvæðum fjöleignarhúsalaga og að lagaskilyrði væru uppfyllt til að vísa henni úr húsinu. Var henni því gert að flytja ásamt öllu sínu innbúi úr íbúðinni innan mánaðar og henni gert að selja íbúðina innan þriggja mánaða. Því til viðbótar þarf hún að greiða húsfélaginu, stefnanda málsins 1.100 þúsund krónur í málskostnað.