Landsréttur dæmdi nýverið íslenskt ferðaþjónustufyrirtæki til að greiða fyrrverandi starfsmanni 6 milljón króna vegna ólögmætrar uppsagnar, en viðkomandi var ólétt þegar uppsögn átti sér stað.

Forsaga málsins var sú að konan var ráðinn til starfa hjá fyrirtækinu í apríl 2019 án skriflegs ráðningarsamnings. Í júní sama ár var viðkomandi sagt upp störfum en stuttu áður tilkynnti hún stjórnarformanni fyrirtækisins um óléttuna.

Fyrirtækið vildi meina að forsendur uppsagnarinnar voru að viðkomandi var ekki starfinu hæf og að hún var einungis ráðin til þriggja mánaðar reynslutíma sem lauk með umræddri uppsögn. Í uppsagnarbréfi til konunnar voru engar ástæður lagðar fram nema að reynslutíma væri lokið en samkvæmt lögum um fæðingarorlof þá er vinnuveitanda óheimilt að segja upp óléttri konu nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skulu þær koma skriflega fram við uppsögn.

Samkvæmt héraðsdómi sem staðfestur var með vísan til forsenda var talið óumdeilt að viðkomandi var ólétt þegar henni var sagt upp og að hún hafði upplýst stjórnarformann fyrirtækisins um að svo væri. Fyrirtækið bar hallan af því að enginn ráðningarsamningur var til staðar sem sýndi fram á þriggja mánaða reynslutíma sem og skort á rökstuðningi við uppsögn.

Niðurstaðan var því að um ólögmæta uppsögn var að ræða og fyrirtækinu gert að greiða bætur vegna þess sem nam launum fram að fæðingu barns auk bóta sem námu þriggja mánaða launum í uppsagnarfrest.