Fyrirkomulag útboðs á tollkvótum stenst ekki ákvæði stjórnarskrárinnar um að skattamálum skuli hagað með lögum. Þetta er niðurstaða dóms Landsréttar, í máli Ásbjarnar Ólafssonar ehf. gegn ríkinu, sem kveðinn var upp í dag. Þetta er í þriðja sinn á skömmum tíma sem fyrirkomulag tollkvótaútboðs er dæmt ólögmætt.

Með þremur dómum Hæstaréttar árið 2015 var komist að þeirri niðurstöðu að eldra ákvæði búvörulaga, þar sem kveðið var á um að ráðherra hefði val um tilboð innflytjenda eða hlutkesti hvað tollkvóta varðaði, stæðist ekki stjórnarskrá þar sem með því hefði ráðherra ákvörðunarvald um skattlagningu. Brugðist var við dómunum með því að fella heimildina til hlutkestis niður.

Með þremur dómum héraðsdóms árið 2017, sem ekki var áfrýjað, var komist að þeirri niðurstöðu að það fyrirkomulag stæðist heldur ekki stjórnarskrá. Löggjafinn brást við með því að færa málin í það horf sem þau eru nú í. Samkvæmt þeim bar að leita tilboða í tollkvóta ef umsóknir umfram kvóta bærust. Hæstbjóðendur fengju síðan úthlutuðum kvóta gegn greiðslu í samræmi við tilboð sitt. Þau skilyrði voru sett með reglugerð.

Fyrirkomulag tollkvótaútboðs, sem Landsréttur dæmir þannig andstætt stjórnarskránni, hafði verið aflagt en var tekið upp á ný með samþykkt Alþingis á frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í desember síðastliðnum og á að gilda til miðs næsta árs.

„Eins og glögglega má ráða af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á [búvörulögunum] á árunum 2019 og 2020 hafði ráðherra á þeim tíma sem mál þetta tekur til heimildir til að setja ákvæði í reglugerð um það hvernig velja skyldi á milli þeirra sem gerðu tilboð í tollkvóta og við hvaða boð, eða aðra fjárhæð, skyldi miða hið álagða gjald,“ segir í dómi Landsréttar.

Hefur áhrif út fyrir efni sitt

Þegar af þeim sökum leiddi að um framsal á skattlagningarvaldi væri að ræða sem væri í andstöðu við fortakslaust bann stjórnarskrárinnar við slíku. Af þeim sökum var ríkið dæmt til að endurgreiða félaginu 17,4 milljónir króna auk vaxta og dráttarvaxta. Ljóst er að dómurinn mun hafa á aðra gjaldendur sem greitt hafa tollkvóta á grunni sama ákvæðis og reglugerða en önnur mál af sama meiði hafa beðið í héraði.

Rétt er að geta þess að umrætt fyrirkomulag hafði verið aflagt með breytingum á lögum en það tekið upp að nýju til bráðabirgða, ákvæði þess efnis gildir fram í ágúst 2022, til að verja innlendan landbúnað gegn áhrifum heimsfaraldursins.

„Þessi dómur er fullkomlega rökréttur með tilliti til þeirra krafna sem gerðar eru til skattlagningar í stjórnarskrá og er í algjöru samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar Íslands,“ er haft eftir Páli Rúnari M. Kristjánssyni, lögmanni Félags atvinnurekenda sem fór með málið fyrir hönd félagsins, í tilkynningu á vef FA.

„Svona skattlagning er einfaldlega bönnuð. Dómstólar gera ekki annað en að dæma eftir lögum, sem hlaut alltaf að leiða til þess að önnur niðurstaða var óhugsandi. Þetta er í þriðja skiptið sem dómstólar staðfesta ólögmæti þessarar gjaldtöku en vonandi er nú svo komið að íslenska ríkið hætti að skattleggja tollfrelsið sem það er búið að skuldbinda sig til að veita í alþjóðlegum samningum. Sú niðurstaða er ekki aðeins lögmæt og stjórnskipulega rétt heldur mun hún skila miklum ábata til neytenda og stuðla að aukinni samkeppni og hagsæld,“ segir Páll Rúnar.