Róbert Wessmann, Árni Harðarsson og Magnús Jaroslaw Magnússon voru í dag dæmdir í Hæstarétti til að greiða fyrrum viðskiptafélaga þeirra Matthíasi Johannessen 640 milljónir króna í bætur auk vaxta og dráttarvaxta frá árinu 2010 vegna viðskipta tengdu lyfjafyrirtækinu Alvogen.

Fjórmenningarnir gerðu með sér samkomulag árið 2009 þar sem til stóð að Róbert myndi eiga 94% í Aztiq Pharma Partners ehf. en Árni, Magnús og Matthías 2% hlut hver. Eignarhlutur Róberts var í kjölfarið færður yfir til Árna. Aztiq Pharma Partners átti 30% hlut í Alvogen, í gegnum röð dótturfélaga.

Matthías taldi sig eiga forkaupsrétt á þriðjungi þeirra hluta sem Róbert seldi Árna. Þá taldi Matthías að Árni, Róbert og Magnús hefðu með saknæmum og ólögmætum hætti valdið sér tjóni þegar félagið seldi dótturfélagið Aztiq Pharma AB, sem átti hlutinn í Alvogen á undirverði til Aztiq Pharma ehf. sem var í eigu Árna.

Hæstiréttur féllst á málatilbúnað Matthíasar og dæmdi þremenningana til að greiða fyrrnefndar bætur auk 700 þúsund króna í málskostnað.