Hæstiréttur dæmdi í dag Hvítsstaði ehf., einkahlutafélag í eigu Hreiðars Más Sigurðssonar, Ingólfs Helgasonar, Sigurðar Einarssonar, Steingríms P. Kárasonar og Magnúsar Guðmundssonar til þess að greiða félaginu Hildu ehf. hver um sig heilar 184 milljónir króna.

Svo atvikaðist að Hvítsstaðir ehf. gerði lánssamning við SPRON árið 2005 um lán í erlendri mynt. Lánið var tekið til að fjármagna kaup félagsins á félaginu Langárfossi ehf. Þremur árum síðar var þetta lán Hvítsstaða svo greitt upp með nýjum lánssamningi sem Hvítsstaðir gerðu við SPRON.

Hilda og sjálfsskuldarábyrgð

Kröfurnar sem SPRON átti tilkall til frá Hvítsstöðum færðust þá til Dróma hf., sem var stofnað utan um eigur sparisjóðsins í kjölfar hrunsins. Það var svo Hilda ehf. sem eignaðist kröfurnar eftir að Drómi framseldi þær árið 2014.

Hilda sótti málið svo fyrir dómsstólum og krafðist greiðslu skuldarinnar við Hvítsstaði. Félagið er í eigu Kaupþingsmanna, en hver og einn þeirra á bæði fimmtungshluta í félaginu, en einnig höfðu þeir tekið sjálfsskuldarábyrgð í sama hlutfalli við lántökuna til þess að tryggja lánveitinguna.

Krafðir um milljarð í viðbót

Í kvöld barst svo fréttatilkynning frá Samtökum sparifjáreigenda, þar sem segir að samtökin hafi stefnt forsvarsmönnum Kaupþings vegna markaðsmisnotkunar. Þá eru þeir sakaðir um að hafa valdið hluthöfum bankans fjártjóni með blekkingum. Einnig segir að um prófmál sé að ræða, þar sem skorið verður úr því hvort almennir hluthafar sem áttu hlutabréf í Kaupþingi geti sótt skaðabætur á hendur Kaupþingsmönnum.

Í tilkynningu frá samtökum sparifjáreigenda er stefnunni lýst sem tímamótamáli, og að þess sé krafist að forsvarsmenn Kaupþings greiði Samtökum sparifjáreigenda 902.493.733 krónur ásamt vöxtum.

Því er ljóst að ekki aðeins voru Kaupþingsmenn dæmdir til þess að greiða 923 milljónir króna í dag, heldur hefur þeim svo beint í kjölfarið verið stefnt um heilar 902 til viðbótar.