Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi fyrir helgi stefnanda vil í máli eignarhaldsfélagsins Sjávarsýnar ehf. gegn íslenska ríkinu.  Íslenska ríkinu var gert að greiða Sjávarsýn ehf. um 80 milljónir króna vegna oftekinna skatta og gjalda, auk þriggja milljóna króna í málskostnað. Sjávarsýn er eignarhaldsfélag í eigu Bjarna Ármannssonar.  Með dómnum voru úrskurðir yfirskattanefndar og ríkisskattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda á árunum 2013 og 2014 felldir úr gildi.

Málið á rætur að rekja til ársins 2007 þegar Sjávarsýn festi kaup á einkahlutafélaginu Imagine Invest, sem var lagt niður við sameiningu félaganna árið 2012. Tap var á rekstri Imagine á árunum 2008 og 2009 og nýtti Sjávarsýn sér það tap til frádráttar tekjum í skattaframtölum árin 2013 og 2014.

Ríkisskattstjóri gerði athugasemd við sameininguna árið 2016 og taldi hana ekki gerða í venjulegum tilgangi þar sem Imagine hafi ekki verið virkt félag í rekstri. Þessu mótmælti Bjarni og fór með málið fyrir yfirskattanefnd sem staðfesti úrskurð Ríkisskattstjóra ári seinna. Í framhaldinu var ákveðið að fara með málið fyrir héraðsdóm.

Lykilatriði í málflutningi Sjávarsýnar var að sýna fram á að Imagine Invest hafi sannarlega verið virkt félag í rekstri. Í skýrslu Bjarni Ármannsson fyrir dómi rekur hann tilurð félagsins og hvernig tap á rekstri þess var til komið á árunum 2008 og 2009. Þá hafnaði hann því að félagið hafi verið óvirkt og benti máli sínu til stuðnings á að félagið hafi keypt hlutabréf í Marel fyrir milljón krónur og haft fleiri fjárfestingar til skoðunar, m.a. í Emm Ess ís. Lagðar voru fram fundargerðir aðalfunda félagsins og bent á að það hafi skilað ársreikningum.

Héraðsdómur féllst á málflutning Bjarna og voru úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar því felldir úr gildi.