Hæstiréttur kvað nýlega upp dóm sem staðfesti að Þór Ingvarsson ætti forkaupsrétt á tólf hlutum, sem námu um 60% hlutafjár, í Þingvallaleið ehf., en félagið endaði í eigu SPV 25 ehf. KÖS ehf. stóð fyrir kaupunum fyrir hönd þess félags, sem var óskráð þegar gengið var frá viðskiptunum. Héraðsdómur hafði áður sýknað KÖS og seljendur hlutanna af kröfum Þórs. Þór á 30% eignarhlut í Þingvallaleið. Félagið er rótgróið fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var árið 1969 af fimm aðilum, meðal annars foreldrum Ingvars. Fyrirtækið rak langferðabifreiðar, en rekstur þess var færður í annað félag í lok árs 2015.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að 4. janúar 2016 seldu fimm aðilar hluti sína í Þingvallaleið til KÖS ehf. Á meðal þessara fimm seljenda voru þrjú systkini Ingvars, þau Elín, Sigríður og Sigurður. Þór hafði áður efnt til samstarfs við þrjá menn, sem áttu saman KÖS, vegna kaupa á hlutunum. Í kjölfarið gerðu Þór og KÖS tilboð í hlutina fyrir hönd óskráðs einkahlutafélags sem stofna átti síðar. Þetta óskráða einkahlutafélag átti að stofna til að halda utan um eignarhlutinn. Tilboðið var lagt fram þann 4. júní 2015 og var það samþykkt sama dag. Ýmsir fyrirvarar voru á kauptilboðinu, meðal annars um fjármögnun.

Deilt um kauptilboð

KÖS greiddi umsamið kaupverð hlutanna, sem nam samtals rúmum 93 milljónum króna, 4. janúar árið 2016, fyrir hönd hins óstofnaða félags samkvæmt dómi Hæstaréttar. Þór vildi ekki hafa aðkomu að þessum viðskiptum og byggði meðal annars á því að hann væri ekki skuldbundinn af fjármögnuninni sem KÖS stóð fyrir, þar sem hann ætti enga aðkomu að fjármögnuninni. Hann taldi einnig að um nýjan kaupsamning væri að ræða, því hann hafi ekki haft aðkomu að viðskiptunum og því hafi forkaupsréttur hans virkjast. Seljendur og kaupandi töldu hins vegar að Þór hefði vanefnt þær skyldur sem hann tók á sig í kauptilboðinu. Þær vanefndir ættu þó ekki að hafa áhrif á kauptilboðið og töldu þeir að kaupin hefðu gengið eftir þegar KÖS greiddi út kaupverðið. Aðilarnir eru því ósammála um það hvort nýr samningur hafi komist á þegar KÖS greiddi kaupverðið án aðkomu Þórs eða hvort kaupsamningurinn sem gerður hafði verið sjö mánuðum áður hafi gengið eftir.

Forkaupsréttur Þórs staðfestur

Hæstiréttur komst svo að þeirri niðurstöðu að þegar seljendur samþykktu tilboðið hafi komist á samningur sem hafi verið háður tilteknum skilyrðum og að þeim uppfylltum skyldi hann efndur eigi síðar en 4. janúar 2016. Þegar samningurinn hafi svo komist á hafði einkahlutafélag sem átti að vera kaupandi hlutanna, ekki verið stofnað. Þór hafi ekki heldur í eigin nafni efnt þær skuldbindingar sem hann tók á sig með tilboðinu. Ekkert hafi því orðið úr þeim kaupum sem komust á með samþykki tilboðsins.

KÖS hafði innt af hendi til seljenda þá greiðslu sem fram kom í kauptilboðinu og seljendur hafi í kjölfarið framselt hluti sína í Þingvallaleið til KÖS. Hæstiréttur taldi að með þessu hefði komist á nýr kaupsamningur og KÖS væri kaupandi samkvæmt honum. Þegar sá samningur hafi komist á hafi forkaupsréttur Þórs orðið virkur og hann hafi tilkynnt stjórn Þingvallaleiðar um að hann hygðist nýta sér þann rétt innan tiltekins tíma. Hæstiréttur viðurkenndi því að Þór hefði átt forkaupsrétt á hlutunum. Héraðsdómur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að forkaupsrétturinn hafi verið fallinn úr gildi, þar sem þessi viðskipti fælu ekki í sér nýjan samning. Dómur Hæstaréttar viðurkennir forkaupsréttinn, en kveður ekki beint á um hvernig framhald málsins skuli leyst og því á eftir að koma betur í ljós hvert framhald málsins verður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .