*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 15. maí 2019 17:53

Dæmdur fyrir að svíkja út flugmiða

Franskur karlmaður sveik út flugmiða að andvirði 1,2 milljóna hjá WOW. Maðurinn er flúinn af landi brott.

Ritstjórn
Ekki er vikið að einkaréttarkröfu Wow í niðurstöðu eða dómsorði héraðsdóms.
Haraldur Guðjónsson

Franskur karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur fyrir viku í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa svikið út flugmiða með Wow air með því að gefa upp við miðakaup greiðslukortanúmer annarra einstaklinga. Þá var hann jafnframt sakfelldur fyrir að hafa gert tilraun til slíks í átta skipti.

Andvirði miðanna sem maðurinn náði að svíkja út var tæplega 1,2 milljónir króna sé miðað við gengi evru og dollars í dag. Brot mannsins, svo og tilraunir til þeirra, hófust í janúar í fyrra en þeim lauk í ágúst á síðasta ári er hann var handtekinn á Keflavíkurflugvelli. Var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald í lok ágúst en síðan í farbann allt til 27. desember 2018. Þrátt fyrir það tókst honum að komast úr landi.

Ekki tókst að birta ákæruna fyrir manninum og var hún því birt í Lögbirtingablaðinu þann 20. mars þessa árs. Mætti hann ekki við fyrirtöku málsins og var það því dæmt að honum fjarstöddum. Auk refsingarinnar var hann dæmdur til að greiða þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi, rúmar 932 þúsund krónur.

Í málinu hafði Wow air uppi einkaréttarkröfu auk kröfu um málskostnað vegna hennar. Ekki er vikið að henni með neinum hætti í niðurstöðukafla dómsins eða dómsorðinu sjálfu.

Stikkorð: Wow dómsmál