Raj Rajaratnam, stofnandi og stjórnandi vogunarsjóðsins Galleon Group, var fundinn sekur um stórfelld innherjasvik fyrir dómstólum vestanhafs í dag. Kviðdómur skipaður 12 einstaklingum féllst á alla 14 liði ákæruvaldsins.

Málið er hið stærsta sinnar tegundar í sögu bandarísks réttarkerfis. Brot Rajaratnam ná yfir 7 ára tímabil. Hann fundinn sekur um að hafa stundað ólögleg innherjaviðskipti með því að að nýta upplýsingar sem  meðal annars komu frá framkvæmdastjórum fyrirtækja, bankamönnum og ráðgjöfum. Að mati ákærenda hagnaðist Rajaratnam um 63,8 milljónir dala á ólöglegum viðskiptum, jafnvirði um 7,3 milljarða króna.

Í frétt Bloomberg kemur fram að Rajaratnam hyggst áfrýja niðurstöðunni. Saksóknari sagði í kjölfar dómsins í dag að Rajaratnam á yfir höfði sér 15 og hálfs til 19 og hálfs árs fangelsisvist.

Galleon, sjóður Rajaratnam, var meðal tíu stærstu vogunarsjóða heims á fyrri hluta síðustu áratugar. Eignir í stýringu á árinu á árinu 2008 námu um 7 milljörðum dala. Þá var Rajaratnam í 55. sæti á lista Forbes yfir auðugustu menn heims.