Rajat Gupta, fyrrverandi stjórnarmaður Goldman Sachs, hefur verið fundinn sekur um innherjasvik af alríkisdómstól í Bandaríkjunum. Gupta neitaði ásökunum um að leka upplýsingum úr stjórninni til Raj Rajaratnam, fyrrverandi framkvæmdastjóra vogunarsjóðsins Galleon Group, sem nú afplánar 11 ára fangelsisdóm. Þetta kemur fram í frétt BBC um málið.

Í dóminum er Gupta fundinn sekur í fjórum ákæruliðum af sex. Enn á eftir að ákvarða refsingu en hann gæti verið dæmdur í allt að 20 ára fangelsi. Gupta sat á sínum tíma í stjórnum Procter & Gamble, Rockefeller stofnunni og stofnun Bill og Melinda Gates til viðbótar við setu í stjórn Goldman Sachs.