Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbanka Íslands, var með dómi Landsréttar, kveðnum upp fyrir um klukkustund, dæmdur til að greiða LBI ehf., slitabúi hins fallna banka, 50 milljónir króna í skaðabætur. Upphæðin er með skaðabótavöxtum frá 2. október 2008 til 29. september 2011 en dráttarvöxtum frá þeim degi. Aðrir fyrrverandi stjórnendur bankans, svo og tryggingafélög þeirra, voru sýknuð.

Málið var höfðað árið 2011 og var þrætuepli þess hvort þau hefðu sýnt af sér saknæma vanrækslu með því að innheimta ekki bankaábyrgð sem Landsbankinn, allt 18 milljarða króna, sem bankinn átti á Kaupþing í Luxembourg. Skuldin féll í gjalddaga í júní 2008 án þess að greitt væri af henni. Bankaábyrgðin gilti níu dögum lengur en var ekki gengið á hana.

Auk Sigurjóns var Halldóri Jóni Kristjánssyni og Sigríði Elínu Sigfúsdóttur stefnt til varnar auk bresks tryggingafélags sem bankinn var með stjórnendatryggingu hjá. Dómkrafan sjálf hljóðaði upp á rúmlega 10,5 milljarða króna í hvað þremenningana varðar en rúmlega þriggja milljarða kröfu var beint að tryggingafélögunum.

Krafan lækkuð við meðferð málsins

Dómkrafa málsins var upphaflega 16,2 milljarðar króna en var lækkuð, meðal annars um 1,5 milljarð króna með vísan til samkomulags um bætur sem LBI náði við PWC. Þó var tekið fram að sú upphæð „væri verulega umfram þá hagsmuni sem hefðu komið í hlut [LBI] með samkomulagi um niðurfellinu á dómsmáli á hendur PWC hér heima og í Bretlandi.

Stefndu byggðu á því að enginni saknæmri háttsemi hafi verið til að dreifa sem gæti rennt stoðum undir bótakröfu. Þeim beri ekki að bæta fyrrverandi vinnuveitanda sínum meint tjón enda hafi hann skuldbundið sig til að kaupa ábyrgðartryggingu til að mæta mögulegum kröfum á þau vegna starfa þeirra. LBI yrði að bera af því hallann að hafa ekki viðhaldið slíkri tryggingu og að kæmi til þess að slitastjórninni yrði dæmd fjárhæð úr þeirra hendi ættu þau skuldajafnaðarkröfu á LBI á móti.

Tryggingafélögin byggðu sýknukröfu sína meðal annars á því að verulega hafi skort á að hinn fallni banki hafi sinnt upplýsingaskyldu sinni í aðdraganda töku tryggingar. Þær upplýsingar sem veittar hafi verið hafi ýmist verið ófullnægjandi eða beinlínis rangar. Yrði LBI að bera hallann af því.

Þungbært yrði að greiða milljarðana tíu

Í dómi Landsréttar var fallist á að Sigurjón hefði sýnt af sér saknæma vanrækslu hvað atvikið varðar, rétt er að geta þess að hann var staddur í tveggja vikna sumarfríi á þeim dögum sem atvik málsins áttu sér stað, en ekki þótti sannað að Halldór Jón hefði haft nokkuð með málið að gera. Hvað Sigríði Elínu varðar þar sem sök hennar þótti ekki slík að sanngjarnt væri að hún bæri bótaábyrgð.

Þótt umfang eftirstandandi tjóns hafi verið rúmir tíu milljarðar var það mat Landsréttar að skilyrði skaðabótalaga til lækkunar bótafjárhæðar, það er að ábyrgðin yrði Sigurjóni svo þungbær að ósanngjarnt mætti telja, væri uppfyllt í málinu. Þóttu bætur því hæfilega ákveðnar 50 milljónir króna. Slumpvaxtaútreikningur leiðir hins vegar til þess að endanleg upphæð sé talsvert hærri.

Hvað tryggingafélögin tvö varðar þá féllst Landsréttur á að bankinn hefði vanrækt upplýsingaskyldu sína gróflega. Ábyrgð þeirra var því felld niður. Málskostnaður var felldur niður milli LBI og Sigurjóns en slitabúið þarf að greiða öðrum stefndu 21 milljón króna í málskostnað.

Rétt er að geta þess að fleiri bótamál, höfðuð af LBI á hendur fyrrverandi stjórnendum, bíða dóms í héraði en meðferð þeirra hafði verið frestað meðan botn fengist í málið í Landsrétti.