Maður var dæmdur í skilorðsbundið þriggja mánaða fangelsi í dag fyrir brot á skattalögum, og að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum á árunum 2007 og 2008.

Í dómi héraðsdóms segir að kærði hafi látið undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum fjármagnstekjur samtals að fjárhæð 87 milljónum króna sem tilkomnar voru meðal annars af hlutabréfasölu og uppgjörum framvirkra skiptasamninga. Þá komst ákærði undan því að greiða fjármagnstekjuskatt upp á samtals 8,7 milljónir króna.

Samkvæmt lögum skal hver sá maður sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi greinir rangt eða villandi frá skattframtali sínu greiða fjársekt sem má vera allt að tíföld upphæð skattfjárhæðinni sem undan var dregin.

Í niðurstöðum dómsins segir að ákærði skuli sæta skilorðsbundnu fangelsi í þrjá mánuði og greiða 13,8 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en mistakist ákærða að greiða sektina innan tímarammans verður fangelsið sjö mánuðir.