Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) mun kveða upp dóm í máli Kaupþingsmanna gegn ríkinu þann 4. júní næstkomandi. Þetta er tilkynnt á vef dómstólsins.

Um er að ræða mál Sigurðar Einarsson, Hreiðars Más Sigurðssonar, Ólafs Ólafssonar og Magnúsar Guðmundssonar gegn ríkinu en þeir telja að brotið hafi verið á réttindum þeirra í Al-Thani málinu. Fjórmenningarnir voru dæmdir í Hæstarétti í febrúar 2015, Heiðar Már og Magnús fyrir umboðssvik og Sigurður og Ólafur fyrir markaðsmisnotkun.

Sigurður hlaut fjögurra ára dóm, Magnús og Ólafur fjögur og hálft ár og þyngsta dóminn hlaut Hreiðar Már eða fimm og hálft ár. Hin saknæma háttsemi fólst í því að í september 2008 var tilkynnt að Sheik Mohammed bin Khalfia Al-Thani hefði keypt 5,01% hlut í Kaupþingi en rannsókn leiddi í ljós að í raun hefði Kaupþing sjálft verið kaupandi hlutarins.

Kæra fjórmenninganna til MDE byggir á því að brotið hafi verið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar við meðferð sakamálsins. Í fyrsta lagi er byggt á því að Árni Kolbeinsson, þáverandi hæstaréttardómari, hafi verið vanhæfur til að dæma í málinu þar sem eiginkona hans var varaformaður stjórnar FME á þeim tíma er stofnunin hafði málið til meðferðar. Þá starfaði sonur Árna, Kolbeinn, sem forstöðumaður lögfræðisviðs slitastjórnar Kaupþings á árunum eftir hrun. Því hafi það ekki verið sjálfstæður og óvilhallur dómur sem skar úr um sekt þeirra.

Í annan stað byggja þeir á því að brotið hafi verið á rétti þeirra til að hafa uppi varnir í málinu þar sem þeim hafi ekki verið veittur nægur tími til að undirbúa málsvörnina. Þá telja þeir einnig að hleranir ríkisins á símtölum þeirra við verjendur hafi ekki verið í samræmi við réttindi þau sem Mannréttindasáttmáli Evrópu tryggir þó ekki hafi verið byggt á símtölunum við sakfellinguna.

Dómur mun liggja fyrir þriðjudaginn 4. júní næstkomandi klukkan 10 að frönskum tíma.