Dagar Bear Stearns gætu verið taldir eftir 85 sögu þess sem fyrirtækis á Wall Street. Fjárfestingabankinn JP Morgan Chase íhugar nú að taka yfir fyrirtækið, sem hefur lent í miklum erfiðleikum tengdum undirmálshúsnæðislánum. Bloomberg greinir frá þessu.

Bear Stearns rambar nú á barmi gjaldþrots vegna fjárþurrðar, og fékk í gær neyðarlán frá Seðlabanka Bandaríkjanna og JP Morgan. Þetta var stærsta björgunaraðgerð sem hefur verið framkvæmd af ríkinu á bandarískum fjármálamarkaði fyrr og síðar. Aðgerðin kom þá ekki í veg fyrir vantraust viðskiptavina og hluthafa, og féllu bréf í félaginu um 47% í gær.

Forstjóri Bear Sterns, Alan Schwartz, sagði fyrr í vikunni að félagið hefði ágætan aðgang að fjármagni. Í gær kom hins vegar sú yfirlýsing að það aðgengi hefði „versnað til muna síðastliðna 24 tíma”.