Dagbjört Vestmann hefur verið ráðin rekstrarstjóri netverslunar Samkaupa en hún mun hefja störf 3. maí næstkomandi.

Dagbjört hefur langa reynslu af rekstri netverslana en hún hefur síðustu ár stýrt netverslunum Elko, A4 og nú síðast Húsagagnahallarinnar, auk þess að hafa sótt mikið af námskeiðum og endurmenntun á sviði netverslunar.

Dagbjört er menntaður viðskiptafræðingur og var lokaverkefni hennar „Netverslun: Mikilvægi þjónustu-og hönnunareiginleika.

„Ég er mjög spennt fyrir því að koma að netverslun Samkaupa og taka þátt í að þróa hana til að mæta væntingum viðskiptavina enn betur" segir Dagbjört.

„Við erum mjög ánægð að fá svona öflugan einstakling til liðs við okkur og vitum að hún mun smellpassa inn í Samkaupsliðið. Við fundum strax að hún brennur fyrir rekstri netverslana og hefur mjög yfirgripsmikla þekkingu, enda hefur hún komið að ýmiss konar rekstri, hefur unnið við allt frá bakendakerfum til framenda og þekkir ferlin inn og út. Rekstur og þróun netverslunar er á mikilli siglingu og miklar breytingar fyrirséðar á komandi árum. Það var því mikilvægt að fá inn aðila sem getur þróað þetta með okkur og passað upp á að við verðum áfram leiðandi í netverslun með matvöru. Við hlökkum mikið til að vinna með henni," segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdarstjóri verslunarsviðs Samkaupa.