Valdir kaflar úr dagbókunum birtust á dögunum í nýjustu útgáfu bandaríska tímaritsins Vanity Fair. Heildarútgáfan, sem sagnfræðingurinn Douglas Brinkley ritstýrir, kemur svo út þann 22. maí. Reagan hélt dagbók allan sinn forsetaferil og eina tímabilið sem færslur eru ekki settar inn er þegar hann var að jafna sig eftir morðtilræðið árið 1981. Reagan er ekki með óþarfa orðvaðal þegar kemur að því að lýsa þeirri reynslu að verða fyrir byssukúlu: Hann sagði það vera sárt.

Dagbókarfærslurnar benda til þess að forsetinn hafi snemma á ferli sínum verið upptekinn af uppgangi kommúnista í Mið-Ameríku en ekki er að sjá að það hafi haldið fyrir honum vöku. Einn dag árið 1981 ritar hann að bandarísk yfirvöld hafi haldgóðar sannanir um vopnasendingar kúbverskra stjórnvalda til Níkaragva. Í kjölfarið segist hann hafa horft á kvikmyndina Tribute með Jack Lemmon, sem hann segir vera frábæran leikara. Kvikmyndir eru aldrei langt á undan í dagbókarfærslunum. Meðal annars ritar Reagan um að hann hafi lofað kvikmyndaleikaranum ástsæla Jimmy Stewart að beita sér fyrir banni á að nútímatækni yrði beitt til þess að lita gamlar svarthvítar kvikmyndir.

Það voru ekki eingöngu áhyggjur af uppgangi kommúnista í Rómönsku-Ameríku sem sóttu á forsetann í byrjun níunda áratugar nýliðinnar aldar. Ástandið í Miðausturlöndum sótti svo á hann að hann óttaðist að hinsta stund mankyns væri í sjónmáli.Í kjölfar þess að ísraelskir orrustuflugmenn sprengdu upp kjarnorkustöð Saddams Hussein í Írak árið 1981 segist hann óttast að dómsdagur sé í nánd. Hann gagnrýnir Menachem Begin, þáverandi forsætisráðherra Ísraels, fyrir loftárásina, en skrifar hjá sér að bandarísk stjórnvöld muni samt sem áður standa með Ísraelsmönnum. Hann segir jafnframt frá því í dagbókunum að hann hafi gagnrýnt Begin harðlega fyrir framferði ísraelska hersins í Líbanon og að hann hafi vísvitandi notað orðið "helför" í því samtali.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.