Það eru stórfréttir sem blása von í brjóst annarra útgáfufyrirtækja að tekjur Guardian News & Media (GNM), sem á bresku dagblöðin The Guardian og The Observer, hafi aukist um sjö prósent á síðasta ári. Þessi tekjuaukning varð í kjölfar þess að vinsældir stafræns efnis jukust. Þessi aukning vó á móti samdrætti í prentuðu efni.

Tap varð í rekstri GNM á síðasta ári sem nam 30,6 milljónum breskra punda, eða um 6 milljörðum íslenskra króna. Hins vegar er talið að jákvæðar breytingar séu í vændum fyrst að í fyrsta sinn sé stafrænu efni að takast að vega á móti tapi á prentuðu efni eftir margra ára baráttu.

Rannsóknarblaðamennska The Guardian hefur undanfarin ár komið blaðinu á kortið í Bandaríkjunum og nú er breska dagblaðið orðið þriðja mest lesna dagblaðið á netinu. Mánaðarlega heimsóknir nema 100 milljónum á síðunni.

Framkvæmdastjóri The Guardian Andrew Miller segir í viðtali við The Independent að þrátt fyrir að efnið á netinu sé ókeypis muni hann halda prentun blaðsins áfram því hann trúi á framtíð prentaðs efnis. Hann segir mismunandi aldurshópa þurfa á mismunandi miðlum að halda. Hann bendir á að 40-60 ára aldurshópurinn kaupi ennþá blaðið á prenti, þeir sem eru 30-40 ára gamlir lesi blaðið á netinu og þeir 20-40 ára lesi það í símum sínum. Yngsti markaðshópurinn unglingar og ungt fólk á þrítugsaldri horfi hins vegar mest á myndbönd síðunnar. Miller segir að starfsmenn The Guardian muni halda áfram að þróa miðil sinn með blessun eigandans