*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 7. nóvember 2013 09:50

Dagblöð ennþá langvinsælust

Dagblöð eru langvinsælasti auglýsingamiðillinn hjá þeim sem auglýsa í íslenskum fjölmiðlum.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Prentmiðlar eru með rétt tæplega 50% af auglýsingamarkaðnum á Íslandi, sé miðað við veltu. Þetta er mat Birtingahússins.

Þar er hlutur dagblaða langstærstur. Hlutur tímarita og annarra prentmiðla nemur einungis nokkrum prósentum. Sjónvarp er með um fjórðung af markaðnum, útvarp með um 16% og netið um 8%. Hugi Sævarsson, framkvæmdastjóri hjá Birtingahúsinu, segir að auglýsingar á prenti hafi minnkað langmest frá hruni. Hlutur prentmiðla hafi verið um 60% af kökunni þegar mest var.

„Opinberar upplýsingar um veltu ákveðinna miðlagerða, eins og netið, eru ekki til hér. En við byggjum upplýsingarnar um veltuna á eigin upplýsingum og viðtölum við stærstu aðila í geiranum. Við áætlum þennan íslenska auglýsingamarkað vera í kringum 10 milljarða,“ segir Hugi. Þær tölur eigi við um auglýsingabirtingar og kostnaður vegna auglýsingagerðar er ekki meðtalinn. Við þetta bætist síðan markaðsaðgerðir eins og mark- og fjölpóstur, vörusýningar/ markaðsviðburðir og fleira.

Athygli vekur að hlutur vefmiðla á auglýsingamarkaði hér á landi er mun minni en annars staðar. Samkvæmt tölum frá Warc/Admap eru vefmiðlar með um 22% af auglýsingamarkaðnum á alþjóðavísu, en eins og áður kom fram telur Birtingahúsið að hlutur þess sé einungis 8 prósent hér. Hugi segir þó að hlutfall netbirtinga hjá Birtingahúsinu sé nær heimsmeðaltalinu en Íslandsmeðaltalinu.

„Netið er ekki stórt í samanburði við mörg af þeim löndum sem við berum okkur saman við, en fer hlutfallslega stækkandi. Þarna hefur átt sér stað nokkuð nýleg breyting sem er að auglýsa á erlendum veitum,“ segir Hugi. Þar á hann meðal annars við Google, Facebook og YouTube. Þetta eigi ekki við um aðrar miðlategundir. „Það er því margt spennandi í gangi og samkeppnin um athyglina hefur aldrei verið jafn hörð og skemmtileg,“ segir Hugi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.