*

þriðjudagur, 17. maí 2022
Innlent 26. maí 2018 20:02

Þróa nýjungar í lyfjaleitun

Lyfjaleitarfyrirtækið 3Z ehf. notar sebrafiska í rannsóknum sínum á sjúkdómum tengdum miðtaugakerfinu.

Perla Björk Egilsdóttir, og Karl Ægir Karlsson, meðstofnandi
Haraldur Guðjónsson

Lyfjaleitarfyrirtækið 3Z ehf. þróar nýstárlegar að- ferðir í lyfjaleitun. Hjá fyrirtækinu starfa sjö starfsmenn og nemar, en það er í raun hluti af taugarannsóknarstofu Háskólans í Reykjavík. Um er að ræða leitun að virkum lyfjaefnum í heilli lífveru og notar fyrirtækið til þess sebrafiska.

„Þetta er í raun næsta skref í þróun á lyfjaleitarmarkaði þar sem nagdýr hafa verið notuð í þessum tilgangi. Með því að nota sebrafiska erum við í raun að stytta lyfjaleitarferilinn. Það tekur styttri tíma og er hraðvirkara að nota þá fremur en nagdýrin,“ segir Perla Björk Egilsdóttir, framkvæmdastjóri 3Z.

Hún segir  sebrafiskana jafnframt vera einstaklega hentuga í slíkar rannsóknir enda ódýrir, fjölgi sér hratt og séu með mið- taugakerfi sem sé hliðstætt mið- taugakerfi mannsins. En þau líkindi eru ástæða þess að hugmyndin kviknaði að nota þá í rannsóknirnar. Þeir eru að auki gegnsæir þegar þeir eru seiði sem veldur því að auðveldara er að fylgjast með lyfjaáhrifunum. Líkönin og greingarprófin sem fyrirtækið þróar einblína á miðtaugakerfið og mæla heilavirkni.

„Þetta er vara sem hefur sannað sig á markaði. Við fylgjumst með hvaða áhrif lyfið hefur á atferlið. Í rauninni langar mann að nota orðið fullkomið í þessu samhengi. Atferlisfræði, erfðafræði og taugasálfræði eru tengd saman,“ segir Perla. 

Fyrirtækið var stofnað af Karli Ægi Karlssyni en hann leiðir nú rannsóknar og þróunarstarf fyrirtækisins. Núverandi hluthafar hjá fyrirtækinu eru meðal annarra Háskólinn í Reykjavík, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Haraldur Þorsteinsson, meðstofnandi

Einn nýr hluthafi hefur bæst í hópinn en það er félag í eigu Hermanns Kristjánssonar og Guð- borgar Guðjónsdóttur, sem kennd eru við Vaka fiskeldiskerfi.

Stór hlutafjáraukning væntanleg

Stór hlutafjáraukning er í farvatninu hjá fyrirtækinu. „Við vorum að auka hlutaféð lítillega nýverið og búið er að ljúka því. En stærri hlutafjáraukning er í undirbúningi. Búið er að þróa greiningarpróf og við erum komin með viðskiptavini. Næsta skref er síðan að fara í markaðssókn og taka næstu skref í þróun félagsins. Til þess að byggja undir það stefnum við að því að auka hlutaféð,“ segir Perla.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Frumkvöðlar 3Z ehf.