Fjármálaeftirlitið rannsakar nú hvort allir hafi setið við sama borð í lokuðu útboði til fjárfesta sem lauk síðastliðinn fimmtudag. Verið er að rannsaka hvort forsvarsmenn Eimskips hafa upplýst einhverja um áætlanir sínar að fella niður kaupréttina áður en útboðinu lauk og hvort völdum þátttakendum hafi verið boðið að gera fyrirvara um kaupréttina við tilboð sín. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Í fréttinni kemur fram að Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips á að hafa sagt Stefáni Einari Stefánssyni, formanni VR, frá áformum Eimskips um að falla frá kaupréttum stjórnenda félagsins áður en útboðinu lauk. Stefán Einar sagði þá Helga Magnússyni, stjórnarformanni Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, frá málinu í framhaldi.