Um 80% þjóðarinnar notar Netið, hlutfallslega fleiri en í öðrum Evrópulöndum að Norðurlöndum meðtöldum. Hlutfallslega eru Netnotendur jafn margir þriðja árið í röð. Dagleg notkun Netsins eykst hins vegar. Þetta er þriðja rannsókn Hagstofunnar á notkun heimila og einstaklinga á tæknibúnaði og Netinu.

Hún sýnir m.a. að tölvur er að finna á 86% heimila, háhraðatengingum við Netið fjögar úr 40 í 54% milli ára og 25% þjóðarinnar hefur stundað Netviðskipti. Á þetta er bent í frétt á heimasíðu Tæknivals.

Þar er ennfremur bent á að Hagstofan kannaði einnig helsta tilgang Netnotkunar. Líkt og fyrri ár er Netið helst notað til samskipta og upplýsingaleitar. Níu af hverjum tíu nota Netið til að skiptast á tölvupósti, 87% leita upplýsinga um vörur og þjónustu, þrír af hverjum fjórum lesa vefútgáfur dagblaða og tímarita og tveir þriðju nota Netið til bankaviðskipta í heimabanka. Þá kemur í ljós að tæplega tveir af hverjum þremur nota Netið í ferðatengdum tilgangi og helmingur aðspurðra leita upplýsinga um heilsu og heilbrigðismál. Könnunin sýnir einnig að fleiri nota nú spjallrásir en í fyrra, 41% á móti 36%. Sama má segja um þá sem léku eða náðu í leiki, tónlist eða myndir af Netinu, en hlutfall þeirra fór einnig úr 36% í 41%.