Dagmar Sigurðardóttir lögmaður hefur gengið til liðs við Lagastoð lögfræðiþjónustu og kemur inn í eigendahóp lögmannsstofunnar. Hún gegndi starfi sviðsstjóra lögfræðisviðs Ríkiskaupa á árunum 2013-2020.

Dagmar sérhæfir sig í opinberum innkaupum, þ.e. útboðum opinberra aðila á vöru-, þjónustu- og verkframkvæmdum. Hún veitir hvort tveggja fyrirtækjum og opinberum aðilum ráðgjöf en hún hefur gætt hagsmuna bæði ríkis og sveitarfélaga fyrir kærunefnd útboðsmála og dómstólum auk þess sem hún kennir á námskeiðum um opinber innkaup hjá Endurmenntun Háskóla Íslands og víðar.

Dagmar hefur mikla þekkingu á opinberri stjórnsýslu og hefur komið að samningu lagafrumvarpa og reglugerða og átt sæti í margvíslegum nefndum og starfshópum á vegum hins opinbera. Hún starfaði sem lögmaður Landhelgisgæslunnar 2001-2013 og hefur þess vegna yfirgripsmikla þekkingu á hafrétti og almannavörnum.

Dagmar lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands 1994 og meistaranámi í sjávarútvegsfræðum frá sömu deild 2005. Hún hlaut lögmannsréttindi árið 2000. Dagmar er gift Baldri Snæland og eiga þau þrjú börn.

Guðmundur Óli Björgvinsson, framkvæmdastjóri Lagastoðar:

„Mikilvægi opinberra innkaupa fer sívaxandi. Sífellt eru gerðar auknar kröfur um gagnsæi í opinberum innkaupum og samkeppni um samninga við ríki og sveitarfélög eykst með ári hverju. Mistök í opinberum innkaupum geta bakað opinberum aðilum bótaskyldu og því mikilvægt fyrir þessa aðila að leita sér ráðgjafar þegar stór verkefni eru í burðarliðnum. Það er mikill styrkur fyrir Lagastoð að fá Dagmar í eigendahópinn.“