© Aðsend mynd (AÐSEND)

Dagmar Ýr Stefánsdóttir hefur verið ráðin upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Hún tekur við af Ernu Indriðadóttur sem hefur gegnt starfinu frá því fyrirtækið hóf rekstur. Erna sagði starfi sínu lausu í vor.

Fram kemur í tilkynningu frá Fjarðaráli að Dagmar kemur til starfa í samfélagsteymi fyrirtækisins í október.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir varð stúdent frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 2002 og útskrifaðist með BA próf í fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri 2007. Hún starfaði sem fréttamaður á sjónvarpsstöðinni N4 og frá 2008 hefur hún verið forstöðumaður markaðs- og kynningarmála hjá Háskólanum á Akureyri. Dagmar Ýr ólst upp í Jökuldalnum og því má segja að nú snúi hún aftur á heimaslóðir.

Dagmar er gift Guðmundi Hinriki Gústavssyni og saman eiga þau soninn Hinrik Nóa.