*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 29. ágúst 2012 10:33

Dagný hjá Cintamani ánægð með samstarf við Zalando

Dúnúlpur frá Cintamani hafa slegið í gegn í netversluninni Zalando. Cintamani stefnir á að opna stóra verslun í Kanada fyrir árslok.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Dagný Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Cintamani, er hæstánægð.
Aðsend mynd

„Þetta er rosalega flott,“ segir Dagný Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Cintamani en fyrirtækið er byrjað að selja fatnað í Zalando,  stærstu netverslun Þýskalands. Netverslunin sérhæfir sig í sölu á fötum og skóm og ætlar sér að verða líkast bandarísku netversluninni Amazon í Evrópu á þessu sviði. Fatnaður undir merkjum Cintamani verður í kjölfarið fáanlegur í 13 löndum í Evrópu þar sem Zalando er með starfsemi. Dúnúlpur frá Cintamani hafa slegið í gegn í netversluninni og eru þær vinsælastar í sínum flokki. 

Dagný er hæstánægð og segir í samtali við vb.is þegar mikilvægan áfanga. 

Hér má sjá þær vörur Cintamani sem eru í boði hjá Zalando.

Zalando er risafyrirtækið. Velta þess nam tæpum 80 milljörðum króna í fyrra og standa sterkir fjárfestar á bak við það. 

Haft er eftir Dagnýju í tilkynningu að í netversluninni hafi Cintamani nú nákvæmlega sömu möguleika og aðrir til að fá athygli viðskiptavina.

„Zalando leggur mjög mikið upp úr góðum ljósmyndum af vörunum og nákvæmum upplýsingum. Verðið er svipað og í hefðbundnum verslunum en á móti koma þægindin af að skoða úrvalið og versla heima. Það hefur líka mikið að segja að Zalando býður 100 daga skilafrest, þannig að fólki finnst mikið öryggi að versla með þessum hætti.“

Cintamani nemur land í Kanada

Cintamani nam land í Þýskalandi fyrir um þremur árum og hefur fatnaður undir merkjum fyrirtækisins verið fáanlegur þar í landi hjá mörgum endursöluaðilum. Vörurnar eru jafnframt til sölu í Noregi, Danmörku, Færeyjum og á Grænlandi. Þessu til viðbótar stefnir dreifingaraðili Cintamani í Kanada að opna verslun í New Brunswick í október. Verslunin mun bera heiti Cintamani.

„Þetta verður stór búð,“ segir Dagný.