*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Innlent 8. janúar 2021 20:20

Dagný selur alla hluti sína í Skeljungi

Dagný Halldórsdóttir, stjórnarmaður í Skeljungi, selur öll bréf sín í félaginu, degi eftir að Strengur náði meirihluta í því.

Ritstjórn
Dagný Halldórsdóttir, stjórnarmaður í Skeljungi.

Dagný Halldórsdóttir, stjórnarmaður í Skeljungi seldi í dag öll hlutabréf sín í Skeljungi. Dagný átti 1,25 milljónir hluta sem hún seldi á 10,2 krónur á hlut fyrir tæplega 12 milljónir króna.

Dagný var kjörin í stjórn félagsins á aðalfundi Skeljungs á síðasta ári. Hún keypti bréf sín í Skeljungi í lok ágúst á 8,27 krónur á hlut. Dagný er menntaður verkfræðingur en hefur komið víða við í atvinnulífinu á undanförnum árum og meðal annars setið í stjórn ISB Holding, Advania, Kaffitárs og Mílunnar.

Búast má við að breytingum á stjórn Skeljungs á aðalfundi félagsins í byrjun mars þar sem fjárfestingafélagið Strengur eignaðist meirihluta í fyrirtækinu í gær og mun að líkindum vilja ná meirihluta í stjórn félagsins. Jón Ásgeir Jóhannesson, er bæði stjórnarformaður Strengs og Skeljungs. Þá situr Þórarinn Arnar Sævarsson í stjórn, en hann er einn hluthafa Strengs og meðal eigenda fasteignasölunnar RE/ MAX. Aðrir stjórnarmenn eru Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair og varaformaður stjórnar og Elín Jónsdóttir, umsjónarmaður laganáms Bifrastar.

Höskuldur H. Ólafsson, fyrrverandi bankastjóri Arion banka, sóttist eftir stjórnarsæti á síðasta aðalfundi Skeljungs og naut stuðnings frá lífeyrissjóðum, en hann dró framboð sitt til baka fyrir aðalfundinn eftir að hafa ekki hlotið náð hjá tilnefningarnefnd félagsins.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs seldi einnig öll bréf sín í fyrirtækinu í desember. Þá seldi hann 2,25 milljónir hluta á genginu 8,78 fyrir tæpar 20 milljónir króna.