Eins og greint var frá í gærkvöldi hefur Glitnir hætt að greiða starfsmönnum dagpeninga á ferðum erlendis.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Már Másson, forstöðumaður kynningarmála hjá Glitni að bankinn hafi frá áramótum leitast við að hagræða í rekstri sínum í ljósi breytta aðstæðna.

„Bankinn starfar nú í alþjóðlegu starfsumhverfi og aukin umsvif Glitnis erlendis kalla á tíðari ferðalög starfsmanna. Dagpeningakerfið er gamaldags og nauðsynlegt var að einfalda það," segir Már.

Starfsmenn á ferðalögum greiða ferða, hótel  og fæðiskostnað með sérstöku fyrirtækjakorti sem greitt er af bankanum.

Dagpeningakerfi tíðkast víða, t.d. meðal hinna bankanna, en þó með mismunandi hætti. Þess má geta að dagpeningar eru skattfrjálsir.