Nú þegar tvö ný fríblöð koma inn á dagblaðamarkað Danmerkur með haustinu blasir við fjölmiðlastríð, segir ritstjóri Søndagsavisen, Mads Dahl Andersen á fréttavef Børsen á mánudag.

Andersen bætir við að hann telji að útgefendurnir JP/Politiken, Berlinske og Dagsbrún muni tapa stórt í slíku stríði.

Andersen telur þó Íslendinga hafa ákveðið forskot í slíkri útgáfu þar sem þeir hafi reynslu af útgáfu fríblaða, einnig telur hann Íslendingum til kosta að vera öðrum óháðir á dönskum dagblaðamarkaði, segir í fréttinni.

Dagsbrún stofnaði félagið 365 Media Scandinavia A/S í Danmörku fyrr á árinu. Markaði stofnun félagsins fyrstu skref Dagsbrúnar í átt að útgáfu fríblaðs í líkingu við Fréttablaðið í Danmörku, segir í tilkynningu Dagsbrúnar.