Dagsbrún Media hefur að sögn danska viðskiptablaðsins Börsens sjö ný lönd í skoðun með það fyrir augum að hefja útgáfu dagblaðs í stíl við Fréttablaðið og Nyhedsavisen.

Greint er frá þessu í frétt á heimasíðu Börsens en þar er vitnað til viðtals við Gunnar Smára Egilsson, forstjóra Dagsbrún Media. Þar er haft eftir honum að félagið skoði nú sjö ný markaðssvæði með það fyrir augum að velja þrjú þeirra og hefja útgáfu fríblaðs í þeim löndum á næstu árum. Hvaða aðferðum verður beitt til að velja þessi markaðssvæði er ekki gefið upp.

Þau sjö lönd sem eru til skoðunar eru, Noregur, Svíþjóð, Finnland, Belgía, Holland, Skotland og Írland.

"Við trúum því að hugmynd sú sem Nyhedsavisen byggir á muni virka vel í Noregi," hefur Börsen eftir Gunnari Smára.