Fjöldi fjárfestingasjóða hefur áhuga á að gera tilboð í fjölmiðlaeiningu norska stórfyrirtækisins Orkla Group.

Breska dagblaðið The Times greinir frá því í dag að fjárfestingasjóðirnir Candover, Apax Partners og Providence Equity Partners séu að undirbúa kauptilboð, og að fjárfestingaarmur Goldman Sachs og Mecom, fjárfestingafélag David Montgomery, fyrrverandi forstjóra Mirror-fjölmiðlasamstæðunnar, hafi einnig fengið upplýsingar um Orkla Media.

Dagsbrún hefur gefið til kynna að félagið hafi áhuga á að kaupa Orkla Media, sem meðal annars á danska dagblaðið Berlinske Tidende. Einnig er talið að norrænu fjölmiðlafyrirtækin Schipsted og Bonnier muni gera tilraun til að kaupa fjölmiðlaeiningu Orkla Group.

Orkla Media-fyrirtækið er verðmetið á bilinu 99-127 milljarðar íslenskra króna.