Í dönskum fjölmiðlum í dag er sagt frá ráðningu David Trads sem ritstjóri yfir nýja dagblaðinu sem Dagsbrún hyggst gefa út í Danmörku. David er með langa reynslu í dönskum fjölmiðlum, en starfar nú sem lektor í fjölmiðlafræðum við Syddansk Universitet.

Í netútgáfu Berlinske Tidene kemur fram að meðal þess sem David hefur fengist við í gegnum tíðina er að vera faglegur ritstjóri hjá dagblaðinu Information (journalistisk chefredaktör), ritstjóri á innlendum fréttum danska ríkisútvarpsins, þingfréttaritari Jyllands-Posten og fréttaritari Jyllands-Posten í Moskvu. David tók einnig þátt í að koma dagblaðinu metroXpress á koppinn í Danmörku, en blaðinu er dreift ókeypis.

Vegvísir Landsbankans segir að allt þetta sé til vitnis um að Dagsbrún sé full alvara með aðgerðum sínum. "Ljóst er að engum dylst lengur að Dagsbrún er full alvara með útgáfu ókeypis dagblaðs í Danmörku. Fyrir nokkrum dögum var tilkynnt um ráðningu Svenn Dam sem framkvæmdastjóra yfir fjölmiðlahluta Dagsbrúnar í Evrópu," segir Vegvísirinn.

Svenn er stórt nafn í Danmörku og er talinn hafa breytt fjölmiðlalandslaginu þar í landi, með verðstríði og útgáfu ókeypis dagblaðs. Hann var áður forstjóri hjá Metro International, sem gefur út ókeypis dagblöð víða um heim. Hann hefur einnig unnið hjá Jyllands-Posten, Mærsk og Danske Bank.