Fjarskipta- og fjölmiðlasamstæðan Dagsbrún hefur ráðið Svenn Dam sem forstjóra og varastjórnarformann 365 Media Scandinavia A/S, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

365 Media Scandinavia mun meðal annars sjá um væntanlega útgáfu fríblaðs á vegum Dagsbrúnar í Danmörku.

Í tilkynningu Dagsbrúnar segir að Dam mun bera ábyrgð á uppbyggingu fjölmiðlastarfsemi í Danmörku en jafnframt kanna ný viðskiptatækifæri á sviði fjölmiðlunar á Norðurlöndunum.

Dam hefur starfað í fjölmiðlum í fjöldamörg ár. Hann hefur reynslu af stjórnun fyrirtækja bæði á dönskum markaði og alþjóðlegum mörkuðum, meðal annars hjá Jyllands-Posten og Metro International. Fyrsta verkefni hans mun verða að koma á fót daglegu fríblaði í Danmörku í líkingu við Fréttablaðið.

"Ég hlakka til að bera ábyrgð á uppbyggingu nýs fjölmiðlafyrirtækis á Norðurlöndunum og miðla þannig fjölmiðlareynslu Dagsbrúnar til hinna Norðurlandanna," segir Dam.

"Fjölmiðlamarkaður hefur tekið miklum breytingum undan farin ár. Það er trú mín að frekari breytingar séu í vændum og þær breytingar muni fela í sér góð viðskiptatækifæri á öllum sviðum fjölmiðlunar."

?Við erum mjög ánægð með að fá Svenn Dam til starfa sem forstjóra og varastjórnarformann 365 Media Scandinavia," segir Gunnar Smári Egilsson, forstjóri Dagsbrúnar.

"Hann hefur bæði reynslu og kraft til þess að leiða uppbyggingu fyrirtækisins til sterkrar stöðu á svæðinu. Við höfum fulla trú á því að geta flutt út hugmyndir okkar og sýn á fjölmiðlamarkaðinn til hinna Norðurlandanna."