Dagsektir fyrirtækja sem ekki standa við reglubundin gagnaskil Fjármálaeftirlitsins munu að lágmarki hækka úr 10 þúsund krónum upp í 25 þúsund krónum, en þær gætu farið upp í allt að 100 þúsund krónur.

Fjármálaeftirlitið segir að frá og með 1. janúar næstkomandi muni stofnunin taka mið af stærð og fjárhagslegum styrkleika fyrirtækja við ákvörðun dagsekta á eftirlitsskylda aðila vegna dráttar á reglubundnum gagnaskilum.

Sendi stofnunin erindi þessa efnis til framkvæmdastjóra þeirra fyrirtækja sem eftirlitsskylda er með, en í bréfinu segir meðal annars að hingað til hafi stofnunin ekki nýtt heimild til hærri sekta en lágmarksfjárhæð sem nemur 10 þúsund krónum.

Segja markmiðið að knýja á tímanleg skil

Segir í bréfinu að markmiðið með dagsektunum sé að knýja á um tímanleg skil, en í leiðinni eru lægstu dagsektirnar hækkaðar um 150 prósent, eða upp í 25 þúsund krónur. „Dagsektir þurfa því að vera nægjanlega háar til að knýja það fram,“ segir í bréfi FME.

„Auk þess þarf að tryggja jafnræði við álagningu dagsekta þannig að þvingun um gagnaskil leggist með jöfnum þunga á alla eftirlitsskylda aðila.

Með hliðsjón af framansögðu hefur Fjármálaeftirlitið ákveðið að breyta framkvæmd við álagningu dagsekta á eftirlitsskylda aðila vegna reglulegra gagnaskila þannig að fjárhæðir dagsekta taki mið af stærð og fjárhagslegum styrkleika viðkomandi aðila. Við það mat verður m.a. höfð hliðsjón af því hvaða áhrif rekstrarstöðvun viðkomandi aðila gæti haft á fjármálastöðugleika og hagsmuni viðskiptavina.

Fjármálaeftirlitið hefur því ákveðið að dagsektir vegna reglubundinna gagnaskila nemi frá 25.000 krónum til 100.000 krónum á dag. Hin breytta framkvæmd mun því leiða til verulegrar hækkunar á dagsektum. Hin breytta framkvæmd tekur gildi frá og með 1. janúar 2018 og tekur til allra reglubundinna gagnaskila eftirlitsskyldra aðila með skilaeindaga 1. janúar 2018 eða síðar.“