Páll Gunnar Pálsson, samkeppniseftirlitið
Páll Gunnar Pálsson, samkeppniseftirlitið
© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um dagsektir á Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn kærði ákvörðun eftirlitsins þann 4. maí síðastliðinn, en Samkeppniseftirlitið lagði dagsektir á bankann vegna þess að hann vildi ekki veita eftirlitinu upplýsingar. Bankinn sá sér ekki fært að afhenda gögnin á grundvelli trúnaðar- og þagnarskyldu. Samkeppniseftirlitið kallaði eftir gögnunum vegna rannsóknar á samkeppnisaðstæðum á bankamarkaði.

Dagsektirnar nema 1,5 milljónum króna á dag. Í málsástæðum Seðlabankans kemur fram að hann telur að Samkeppniseftirlitið fari út fyrir valdheimildir sínar með því að beita dagsektunum, „þar sem dagsetkum verði einungis beitt vegna skorts á eftirfylgni við ákvarðanir“.

Ákvörðun Áfrýjunarnefndar byggir meðal annars á því að Samkeppniseftirlitið hafi heimild til að afla upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum, hvort sem þær upplýsingar teljast almennt til trúnaðarupplýsinga eða ekki.

Seðlabankanum er gefinn frestur til að veita upplýsingarnar og falla dagsektir á, verði bankinn ekki við beiðninni, í síðasta lagi þann 1 júlí nk.