Dagur B. Eggertsson hyggst stíga til hliðar sem varaformaður Samfylkingarinnar. Hann sækist ekki eftir endurkjöri á landsfundi flokksins eftir þrjár vikur. Fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi frá þessu í kvöldfréttum. Þar er haft eftir Degi að varaformannsárin hafi verið fjögurra ára sprettur en nú ætli hann að einbeita sér að verkefnum borgarinnar.

Dagur var kjörinn varaformaður Samfylkingarinnar vorið 2009. Hann hefur jafnframt verið oddviti flokksins í borgarstjórn á sama tíma og formaður borgarráðs frá 2010.

„Ég hef ákveðið að bjóða mig ekki fram til varaformennsku áfram. Þetta er búinn að vera fjögurra ára sprettur og nú ætla ég að einbeita mér að verkefnunum hér í borginni,“ segir Dagur í samtali við RÚV.