Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fullyrti í Morgunútvarpinu í morgun að aldrei hefði verið farið í jafnmikla uppbyggingu á húsnæði í Reykjavík eins og síðustu tvö ár og á því næsta.

Í frétt RÚV er vísað í mikla gagnrýni sem borgarstjórn hefur setið undir vegna lítils lóðaframboðs innan borgarmarkanna, en áhersla meirihlutans í borginni hefur verið á þéttingu byggðar.

Segir Dagur að Vogabyggð verði stærsti einstaki þéttingarreitur í sögu borgarinnar og um sé að ræða fordæmalausa uppbyggingu, sem hann viðurkennir þó að muni ekki duga til að kveða niður gagnrýni á lóðaskort.

„Ekki Vogabyggð ein og sér en við erum auðvitað að byggja upp á mjög mörgum reitum og það hefur aldrei farið jafn mikið í uppbyggingu í Reykjavík á nokkrum þremur árum og á síðustu tveimur árum og framundan er. En það bara veitir ekkert af," segir Dagur, en hann segir að nærri fjórðungur íbúða á nýjum svæðum verði leigu- eða búseturéttaríbúðir.

„Það er hluti af samningunum. Það er í raun skylda, þótt einkaaðilar eigi lóð eða byggingarreit, þá þurfa 20 til 25 prósent af íbúðunum að fara inn á leigu- eða búseturéttarmarkað.“

Dagur segir að taka verði með í reikninginn að í Reykjavík séu nú þegar 52 þúsund íbúðir og haft er eftir honum í fréttinni að fasteignamarkaðurinn sé hringrás.