Ég er ánægður með þessa stöðu fyrir hönd meirihlutans og Samfylkingarinnar. Nú er lokaspretturinn eftir og það skiptir miklu máli að fólk mæti á kjörstað. Mér finnast hafa teiknast upp býsna skýrir valkostir á síðustu vikum milli þeirrar þróunar borgarinnar sem á sér stað undir stjórn meirihlutans í átt að grænni, fjölbreyttari, skemmtilegri, þéttari og meiri borg og hins vegar einhvers konar afturhvarfi. Ég held að það skipti máli þegar línurnar leggjast,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um niðurstöðu könnunar sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag. Meirihlutinn í borginni heldur samkvæmt könnuninni.

Fylgi annarra flokka innan meirihlutans hefur sveiflast nokkuð undanfarið ár. „Ég held að flokkarnir í meirihlutanum hafi staðið sig vel og staðið vel saman. Ég held að bæði VG og Píratar eigi mikið inni en birtist í þessum tölum.“ Viðreisn og Sósíalistar virðast af orðræðunni að dæma fremur halla sér í átt að meirihlutanum en minnihlutanum. Dagur segist hafa góða reynslu af að mynda breiðari meirihluta en nauðsyn krafði til, eins og á yfirstandandi kjörtímabili. „Lykillinn við að ná árangri við stjórn borgarinnar er að hlusta á fjölbreyttar raddir og ræða sig að niðurstöðu. Að því gefnu að meginstefnan og framtíðarsýnin sé í sömu átt þá útiloka ég alls ekki samstarf á breiðari grunni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .