Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist ákveðinn um að bjóða sig aftur fram sem oddviti Samfylkingarinnar í næstu borgarstjórnarkosningum sem haldnar verða á næsta ári. Í viðtali við Fréttablaðið segir borgarstjórinn að hann leggi óhræddur störf sín í dóm kjósenda.

„Starfið er áhugavert og fjölbreytt og maður fær tækifæri til að hafa áhrif á mótun samfélagsins. Ég horfi til þess að við hldum áfram að búa til græna borg sem leggur áherslu á lífsgæði, mannlíf og fjölbreytt atvinnutækifæri,“ segir Dagur í viðtali við Fréttablaðið.

Í nýlegri könnun Viðskiptablaðsins á fylgi flokka í Reykjavík var staðan sú að meirihlutinn ríghélt, þrátt fyrir að Samfylkingin hafi tapað miklu fylgi og að Vinstri græn hafi sótt umtalsvert á. Fylgi Samfylkingarinnar, sem í dag er með fimm borgarfulltrúa, hríðféll en flokkurinn mælist nú með 22,3% samanborið við 31,9% í kosningunum.