Dagur Group er nýtt nafn á fyrirtækinu Skífunni. Nafnið Dagur undirstrikar nýtt upphaf, ný tækifæri og nýjar áherslur. Group-viðskeytið er lýsandi fyrir þann tilgang félagsins að halda hóp af rekstrareiningum sem hver um sig hefur sitt markmið og getur vaxið og dafnað á eigin forsendum með stuðningi af heildinni, að því er fram kemur í tilkynningu.

Dagur Group er skilgreint sem framsækið fyrirtæki með fjölbreytta starfsemi. Meginstoðir fyrirtækisins eru tvær: Annars vegar smásöluverslun og hins vegar framleiðsla og dreifing á afþreyingarefni. Einingarnar eru eftirtaldar: Verslanir Skífunnar í Kringlunni, Smáralind og á Laugavegi sérhæfa sig í sölu á tónlist, kvikmyndaefni og tölvuleikjum. Verslanir BT, níu talsins, bjóða allt sem tengist tölvum, tölvuleikjum, kvikmyndum og tónlist á betra verði en fæst annars staðar. Office1 er sérverslun með skrifstofuvörur, tölvur, húsgögn o.fl. fyrir fyrirtæki, stofnanir og heimili. SonyCenter er sérverslun í Kringlunni með tæki fyrir afþreyingu á heimilinu sem leggur áherslu á vandaða þjónustu sem byggist á góðri þekkingu starfsmanna. Undir merki Hljóðfærahússins eru tvær verslanir; Hljóðfærahúsið Laugavegi 176 og Hljóðfærahúsið -- Leifur Magnússon, Suðurlandsbraut 32.

Nýtt nafn á afþreyingarsviði Skífunnar er Sena. Sena annast útgáfu og dreifingu á kvikmyndum, tónlist og tölvuleikjum, auk þess að reka kvikmyndahúsin Smárabíó, Regnbogann og Borgarbíó og hljóðverin Sýrland, Sýrland hljóðsetningu og Hljóðrita Tónlistarútgáfan Skífan mun eftirleiðis bera nafnið Sena en útgáfunöfnin Dennis, Íslenskir tónar og Pottþétt munu halda sínu striki.

Nafn Skífunnar verður áfram á verslununum þremur í Kringlunni, Smáralind og á Laugaveginum.

Ný eining, D3, hefur þegar tekið til starfa innan hópsins en hún mun leita nýrra tækifæra á stafrænni dreifingu afþreyingarefnis. Markmiðið er að vera leiðandi efnisveita afþreyingarefnis fyrir alla stafræna miðla.

Dagur Group er með höfuðstöðvar í Skeifunni í Reykjavík en samtals starfa hjá Degi Group og einingunum um 330 manns og var veltan um 4,5 milljarðar á síðasta ári. Stjórnarformaður Dags Group er Róbert Melax og forstjóri Sverrir Berg Steinarsson, en þeir Sverrir og Róbert keyptu Skífuna um mitt ár 2004.