„Það er gríðarleg eftirsjá af Jóni úr borgarmálunum, en ég veit það jafnvel eftir mörg og löng samtöl við hann undanfarna mánuði að það er ekki hægt að hagga honum i þessari ákvörðun,“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs og oddviti Samfylkingarinnar. Jón Gnarr tilkynnti fyrir hádegi að hann ætlar ekki að halda áfram í borgarstjórn eftir sveitastjórnarkosningar í vor. Besti flokkurinn mun bjóða fram undir merkjum Bjartrar framtíðar.

„Við höfum átt einstakt samstarf sem hefur einkennst af heiðarlegum ssamskiptum og persónulegum trúnaði og samstöðu,“ segir Dagur. „Maður sveiflast á milli þakklætis og ákveðinnar sorgar eiginlega við þessa tilkynningu,“ bætir hann við. „En við eigum endasprettinn eftir og ætlum að ljúka honum með stæl og skila eins góðu búi og hægt er í vor. Það verður auðvitað verkefnið áfram þótt þetta séu tíðindi dagsins,“ segir hann.

Besti flokkurinn og Samfylkingin mynduðu sameiginlega meirihluta árið 2010 og hafa starfað saman síðan þá. Besti flokkurinn mældist í nýlegri könnun með 37% fylgi og fengi sjö kjörna fulltrúa í borgarstjórn en Samfylkingin með tæp 15% og fengi einungis tvo borgarfulltrúa. Dagur vill lítið segja til um það hvaða áhrif hann telur að tíðindi dagsins muni hafa á Samfylkinguna. „Núna er ég bara feginn að vera stjórnamálamaður en ekki stjórnmálaskýrandi þannig að ég ætla að láta þeim það eftir. Ég hef ekki hugmynd um það,“ segir hann.

Aðspurður segir Dagur að hann hafi ákveðið það og tilkynnt fyrir margt löngu að hann ætli að halda áfram.