Reykjavíkurborg hefur endurskoðað markmið aðalskipulags um að 700 íbúðir byggist á hverju ári. Hið nýja markmið er hefja framkvæmdir við 1.250 íbúðir á ári, næstu fimm ár. Samtals á því að hefja framkvæmdir við 6.250 íbúðir á fimm árum.

Nýja markmiðið var sett "til að mæta árlegri uppbyggingarþörf, uppsafnaðri þörf vegna hægrar uppbyggingar eftir hrun og nýrri þörf vegna vaxtar ferðaþjónustu." Þetta kom fram á fundi í ráðhúsinu á þriðjudaginn, þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti nýja húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar.

Á fundinum kom enn fremur fram að á næstu fimm árum myndi borgin leggja samtals 59 milljarða króna til fjárfestinga, húsnæðisstuðnings og sérstakra búsetuúrræða.

Í yfirliti um uppbyggingarsvæði frá 2015 til 2020, sem dagsett er í mars 2017, kemur fram  að 2.577 íbúðir séu á byggingarstigi, samþykkt hafi verið deiliskipulag fyrir 2.611 íbúðir til viðbótar, 4.100 íbúðir séu í formlegu skipulagsferli og þróunarsvæði fyrir 9.255 íbúðir séu í skoðun eða undirbúningi. Samtals eru þetta 18.543 íbúðir.

Mismunandi tölur

Áhugavert er að í yfirlitinu kemur fram að 2.577 íbúðir séu á byggingarstigi. Samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins þá voru 1.228 íbúðir í byggingu í febrúar. Muninn má rekja til þess að inni í tölum borgaryfirvalda eru útgefin byggingarleyfi en Samtök iðnaðarins telja einungis íbúðir sem byrjað er að byggja.

Strax eftir fundinn hófst fundur í borgarstjórn þar sem nýja stefnan í húsnæðismálum var meðal annars til umfjöllunar.
Í meirihluta borgarstjórnar eru Samfylkingin, Björt framtíð, Vinstri grænir og Píratar.

„Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er í senn róttæk, félagsleg og stórhuga," segir í bókun, sem meirihlutinn lagði fram í borgarstjórn. „Reykjavík hefur með átaki í skipulagi tryggt fjölbreytt byggingarsvæði fyrir allar gerðir íbúða með áherslu á litlar og meðalstórar íbúðir á grundvelli markmiða um húsnæði fyrir alla, félagslega blöndun og aðalskipulag Reykjavíkur. Borgin leggur samanlagt fram 59 milljarða til fjárfestinga, húsnæðisstuðnings og sérstakra búsetuúrræða næstu fimm ár. Húsnæðisáætlun veitir kærkomna yfirsýn yfir framgang þessara mála."

Gamlar fréttir í nýjum umbúðum

Minnihlutanum í borgarstjórn þykir áætlunin ekki alveg jafn merkileg.

„Húsnæðisáætlun meirihlutans er því miður gamlar fréttir í nýjum umbúðum," segir í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina. „Athyglisvert er að sjá hvernig meirihlutinn tekur vanefndir síðustu ára um uppbyggingu og rúllar þeim inn í nýjar áætlanir á meðan það er deginum ljósara að meirihlutanum hefur hingað til gengið illa að framfylgja eigin áætlunum.

Einstrengingsleg þéttingarstefna og lóðaskortsstefna hefur stóraukið húsnæðisvandann í borginni. Síðustu árin hefur borgarstjóri þulið upp hvað fasteignafélögin eru að byggja í borginni eða ætla að fara að byggja í borginni á lóðum sem hafa verið í höndum þessara félaga lengi. Hann hefur hins vegar ekki verið jafn duglegur við að úthluta lóðum eða framfylgja stefnum og áætlunum sem settar hafa verið. Nú eru liðin rúm 5 ár síðan húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar var samþykkt og ástandið hefur aldrei verið verra."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .