*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 7. mars 2018 12:46

Dagur með 2 milljónir á mánuði

Borgarstjóri Reykjavíkur fær 100 þúsund krónur í starfskostnað og 205 þúsund krónur í stjórnarlaun ofan á grunnlaun.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

 

Útborguð laun borgarfulltrúa, sem nú eru um 15 en mun fjölga í 23 eftir kosningarnar í vor, eru oft um milljón krónur á mánuði að því er Fréttablaðið greinir frá.

Grunnlaun þeirra nema rúmlega 699 þúsund krónum en álag leggst á þau laun fyrir setu í nefndum og ráðum borgarinnar. Ef borgarfulltrúar sitja ekki í neinum nefndum geta launin hins vegar lækkað, en svo á við um Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, sem nú situr sem óháður borgarfulltrúi. 

Laun hennar nema nú um rétt rúmlega 400 þúsund krónum á mánuði, meðan Líf Magneudóttir forseti borgarstjórnar og borgarfulltrúi VG er til samanburðar með um þrefalt hærri laun.

Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, sem leiðir Samfylkinguna í borginni, er svo með 1,7 milljón krónur á mánuði, en til viðbótar fær hann um 101 þúsund krónur á mánuði í fastan starfskostnað. Þar að auki fær hann svo 205 þúsund krónur á mánuði sem formaður stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

Á tímabili var hann svo með um 305 þúsund krónur á mánuði til viðbótar, er hann leysti Kristínu Soffíu Jónsdóttur af sem stjórnarformaður Faxaflóahafna.

Var hún í fæðingarorlofi frá maílokum árið 2016 til loka september á síðasta ári, en laun stjórnarformannsins voru lækkuð í 261 þúsund í nóvember árið 2016.

Þar til í fyrra höfðu laun borgarstjóra fylgt launum forsætisráðherra og laun borgarfulltrúa miðuðust við þingfararkaup, en í kjölfar hækkunar kjararáðs ákvað borgarstjórn að miða frekar við launavísitölu. 

Er þá miðað við mars 2013 sem upphaf viðmiðunartímabilsins og eru launin hækkuð 2 á ári, í janúar og júlí ár hvert.