Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, nýtur yfirburðastuðnings til að gegna embætti borgarstjóra í Reykjavík á næsta kjörtímabili, samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið á fylgi við borgarstjóraefni framboðslistanna í höfuðborginni, sem greint er frá í Morgunblaðinu í dag. Hefur fylgi hans aukist jafnt og þétt í könnunum undanfarnar vikur og mánuði. Það mælist nú rúmlega 64%.

Í könnuninni sögðust tæp 18% þátttakenda sem afstöðu tóku vilja Halldór Halldórsson, oddvita Sjálfstæðisflokksins, sem næsta borgarstjóra. Það er aðeins minna en í könnun fyrir tíu dögum. Mun færri, 6,2%, nefndu S. Björn Blöndal, oddvita Bjartrar framtíðar. Sóleyju Tómasdóttur, oddvita VG, nefndu 3,5% þátttakenda.

Í annarri könnun, sem unnin var fyrir Fréttablaðið , mælist Dagur með 61%.