Dagur B. Eggertsson, formaður Borgarráðs og varaformaður Samfylkingarinnar segir, í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið að sameining sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu væri mjög skynsamleg. „Frekari sameining hefur aldrei strandað á Reykjavíkurborg. Við höfum hins vegar sparað stórar yfirlýsingar um það og viljum freista þess að ná fram hagkvæmni og hagræðingu gegnum nánari samvinnu.“ Segir hann að gangi slík samvinnuverkefni hins vegar ekki eftir verði án efa meiri áhugi á stórfelldri sameiningu sveitarfélaga á svæðinu.

Allir stefndu á tvöföldun

Dagur segir að í árunum fyrir hrun hafi sameiginlegt utanumhald um þróun höfuðborgarsvæðisins hafi klikkað. „Við vorum með ágætis svæðisskipulag árið 2000 en sveitarfélögin voru nokkuð samstíga í því að fylgja því ekki mjög fast eftir heldur fóru í kapphlaup um að ná uppbyggingarkúfnum til sín.“ Bendir hann á að samkvæmt tölum sem teknar voru saman árið 2007 hafi það verið markmið allra sveitarfélaga í klukkustundar akstursfjarlægð frá Reykjavík að tvöfalda íbúafjölda sinn á 3-5 árum. „Það var augljóst þá að það myndi aldrei ganga upp en þannig var samt aðalskipulagið á þessum stöðum og metnaðurinn eftir því,“ segir Dagur. „Við erum að bíta úr nálinni með þetta og hluti af skuldsetningunni liggur í því að það var fjárfest í innviðum sem enginn er að nota, holræsum, lögnum, gangstéttum, grasi og eins skólum og íþróttamannvirkjum sem eru ekki fullnýtt og eru að sliga rekstur sveitarfélaga.“

Ítarlegt viðtal við Dag B. Eggertsson um rekstur borgarinnar, samstarfið við Besta flokkinn og landsmálapólitíkina birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir tölublöð.