*

mánudagur, 18. nóvember 2019
Innlent 14. febrúar 2018 15:21

Dagur segir atburði í Höfða afbakaða

Borgarstjóri segir Morgunblaðið leggja á versta veg út frá því þegar hann meinaði oddvita Sjálfstæðismanna sæti á fundi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og líklegt áframhaldandi borgarstjórnarefni í meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar í Reykjavík segir Morgunblaðið afbaka atburði í Höfða þegar hann vísaði Eyþóri Arnalds oddvita Sjálfstæðisflokksins og væntanlegs borgarstjórnarefnis minnihlutans á dyr.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá vísaði Dagur Eyþóri af fundi borgarstjórnar með þingmönnum Reykjavíkur sem haldinn var af tilefni kjördæmaviku í borginni. Hefur Eyþór sagt atburðina hálfkjánalega af hálfu Dags sem ekki hafi viljað þiggja stuðning við að halda uppi hagsmunum Reykvíkinga gagnvart ríkinu. 

„Það finnst mér skrýtið frá aðila sem talar oft um nauðsyn samtals, að vilja ekki þetta samtal,“ sagði Eyþór í samtali við Viðskiptablaðið um málið.

Dagur B. Eggertsson birti eftirfarandi yfirlýsingu um málið á facebook síðu sinni:

Að gefnu tilefni vil ég halda nokkrum atriðum til haga varðandi sameiginlegan fund þingmanna og borgarfulltrúa í Höfða sem haldinn var síðast liðinn mánudag. Fundinn boðaði ég í kjördæmaviku skv. hefð, að höfðu samráði við utanríkisráðherra og forsætisráðherra. Í fundarboði kom skýrt fram að um hefðbundinn fund þingmanna Reykjavíkur og borgarfulltrúa í kjördæmaviku væri að ræða. Mér kom því á óvart að Eyþór Arnalds verðandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn skyldi koma til fundarins. Ég heilsaði honum í andyri hússins og sagði honum hvernig í málinu lagi, fundurinn væri fyrir borgarstjórn og þingmenn en frambjóðendur hefðu ekki verið boðaðir. Ekkert fór á milli mála í þessum samskiptum.

Þess var beðið í nokkrar mínútur að allir fundarmenn skiluðu sér og þegar forsætisráðherra var komin í hús bauð ég fundargestum að setjast við langborð. Ég sat fyrir miðju borðsins öðrum meginn með Halldór Halldórsson oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn við hlið mér, en Guðlaug Þór utanríkisráðherra á móti mér. Þá brá svo við Eyþór gengur í salinn og býst til að setjast í auða sætið við hlið Guðlaugs, sem ætlað hafði verið fyrir forsætisráðherra. Við það gerði ég athugasemd, ítrekaði hvers eðlis fundurinn væri, hverjum hefði verið til hans boðið og að ég væri viss um að Vigdís Hauksdóttir hefði líka verið til í að sitja fundinn en hann hefði ekki verið ætlaður frambjóðendum. Ef áhugi væri á slíkum fundi þyrfti að boða hann sérstaklega. Eyþór vék við svo búið af fundinum, forsætisráðherra tók sæti sitt en utanríkisráðherra upplýsti að hann hefði boðið Eyþóri. Voru ekki höfð uppi mikið fleiri orð um þetta atvik þótt sérstakt hafi verið.

Morgunblaðið kýs í dag að afbaka þetta og gerir tilraun til að leggja út á versta veg og kemur það ekki á óvart. Verður blaðið og ritstjórn þess að eiga það við sig og sína lund. Af Höfðafundinum er hins vegar það að segja að það var óvenju létt yfir honum og umræður málefnalegar. Bæði þingmenn og borgarfulltrúar voru sammála um að hann hefði verið hinn gagnlegasti og ráðgera frekari fundi um einstaka málaflokka á næstu vikum.