Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, segist aðspurð ekkert hafa spáð í að endurskilgreina ímynd sína á nýjum vettvangi þegar hún sneri aftur í stjórnmálin í vor.

„Ég veit ég er ekkert allra, en ég berst með hjartanu fyrir öllum mínum málum. Ég er með ríka réttlætiskennd, þoli ekki þegar einhver er beittur óréttlæti og verð þá mikil baráttukona. Ég veit ekki af hverju en ég hef alltaf verið svona, ég er örugglega með snert af ofvirkni,“ segir Vigdís.

„En hefði ég verið að spá í það þá sá ég svo augljóslega þegar ég kom inn í borgina að verkefnin hér eru af þeirri stærðargráðu að ég bara varð að beita mér áfram með þeim hætti sem ég gerði í þinginu.

Ég tek eftirlitshlutverk mitt innan borgarstjórnarinnar, með þeim sem nú stjórna, mjög alvarlega, en þar kemur reynsla mín sem formaður fjárlaganefndar sterkt inn. Þannig að ég hef ekkert breytt um takt í því, en kannski er mesta óþolið gagnvart mér í kerfinu sjálfu því ég er að velta við steinum.“

Dagur vissi af framúrkeyrslunni

Vigdís nefnir dæmi um nálega hálfan milljarð sem fór í endurgerð braggans í Nauthólfsvík, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um segir hún að reynt hafi verið að slá ryki í augu borgarbúa.

„Það er enginn að segja mér að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi ekki vitað af þessari hundraða milljóna framúrkeyrslu við framkvæmdirnar við braggann sem við sitjum núna inn í, enda var farið að krukka í málið á síðasta kjörtímabili. En það átti bara að halda pottlokinu á lengur, bæði yfir þessu máli og fleiri stórum málum sem hafa verið að krauma undir yfirborðinu.

Bæði hefur fallið héraðsdómur og úrskurðarnefnd jafnréttismála hefur fellt úrskurði sem hafa verið alger áfellisdómur yfir stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Ég hreinlega skil ekki hvernig hægt var að halda öllu þessu leyndu fram yfir kosningar, en kerfið sér um sína. Það var greinilega pakkað í vörn og ekkert látið komast út um þessi mál.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .