Ekki er útilokað að bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir eignist 25% hlut í Bakkavör á hluthafafundi félagsins í dag. Á dagskrá fundarins, sem hefst klukkan 10:30 verður farið yfir uppgjör Bakkavarar á fyrsta ársfjórðungi, ákvörðun tekin um greiðslu arðs og þóknun til stjórnarmann ákveðin ásamt kosningu stjórnarmanna. Þá er á dagskrá fundarins kynning á tillögum að breytingum á skipan samstæðu Bakkavarar auk þess sem breyting gæti orðið á hluthafahópnum.

Hlutafé í Bakkavör skiptist í A-, B- og C-hluti. Helstu hluthafar Bakkavarar eru íslenskir bankar og lífeyrissjóðir. Stærstir þeirra eru eru Arion banki, skilanefnd Glitnir, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og lífeyrissjóðurinn Gildi.

Gangi þær áætlanir sem lagt hefur verið upp með geta Bakkavararbræðurnir Ágúst og Lýður eignast 25% hlut í félaginu á móti því að gefa eftir sæti í stjórn. Í Markaðnum, viðskiptahluta Fréttablaðsins, segir að verðmiði fjórðungshlutar í Bakkavör séu 15 milljónir punda, jafnvirði 3 milljarða króna.

Miðað við það er heildarvermæti Bakkavarar 12 milljarðar króna.