Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að velta í dagvöruverslun dróst saman í maí, annan mánuðinn í röð, hvort heldur sem miðað er við veltu fyrri mánaðar eða sama mánuð fyrir ári. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir fjölda föstu-og laugardaga í mánuðinum kemur í ljós að veltan var 3,6% minni en í apríl á föstu verðlagi og lítillega minni en í maí í fyrra. Við mat á dagvöruveltu er ekki hægt að horfa framhjá því að í maí í ár voru föstu- og laugardagar fimm talsins en ekki fjórir eins og í maí á síðasta ári. Velta með dagvöru er alltaf mest á þessum dögum og því nauðsynlegt að taka mið af því. Þegar ekki er tekið tillit til árstíða og dagaleiðréttingar eykst veltan hinsvegar um 2,4% á milli mánaða.

Hægir á einkaneyslu Tölur um dagvöruveltu gefa vísbendingu um þróun einkaneyslu en allmörg teikn eru á lofti þess efnis að verulega sé að hægja á vexti hennar. Mælingar sýna að svartsýni neytenda fer nú vaxandi og nýskráningum ökutækja hefur fækkað mikið auk þess sem verulega hefur hægt á vexti kortaveltu. Þróunin smásöluvísitölunnar er því er í takti við aðrar hagtölur sem varpa ljósi á þróun einkaneyslu.

Viðsnúningur framundan Greining Glitnis býst við að breyttar aðstæður í hagkerfinu og minnkandi neyslugleði almennings verði til þess að viðsnúningur sé framundan í einkaneyslu sem nái hámarki á næsta ári. Reynslan sýnir að neytendur bregðast fljótt við þegar blikur á lofti. Við gerum hinsvegar einnig ráð fyrir skjótum bata einkaneyslu árið 2010 þegar lausafjárkrísan verður að mestu yfirstaðin og hjól efnahagslífsins verða komin á góðan snúning á ný.