Velta í dagvöruverslun dróst saman um 6,8% á föstu verðlagi í janúar miðað við sama mánuð árið áður að því kemur fram hjá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Velta í dagvöruverslun hefur ekki verið minni frá því í byrjun árs 2007 að raunvirði þó neytendur verji mun fleiri krónum til innkaupanna en áður. Þannig jókst velta dagvöru á breytilegu verðlagi um 23,1% á einu ári.

Í janúar síðastliðnum voru fimm helgar en fjórar í janúar í fyrra sem hefði átt að leiða til aukinnar sölu en raunin varð samdráttur. Verð á dagvöru hækkaði um 32% á einu ári, frá janúar 2008 til janúar 2009.

Sala á áfengi jókst hins vegar um 2,2% í janúar miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi og um 37,6% á breytilegu verðlagi. Verð á áfengi hækkaði um 34.6% í janúar síðastliðnum miðað við sama mánuð árið áður samkvæmt verðmælingu Hagstofu Íslands. Ástæðu aukinnar áfengissölu má líklega rekja til þess að í ár voru fimm helgar í janúar en í fyrra voru þær fjórar.

Velta fataverslunar var 11,3% minni í janúar á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra en jókst um 17,8% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Verð á fötum hækkaði um 32,8% á einu ári.

Einnig varð samdráttur í skóverslun. Þannig minnkaði velta skóverslunar um 18,0% í janúar á föstu verðlagi og um 2,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Það er til marks um samdrátt í skóverslun í janúar síðastliðnum að hún var 8% minni en í janúar 2007, mælt á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði um 19,2% á síðastliðnum 12 mánuðum.