Daimler AG í Þýskalandi, framleiðandi Mercedes Benz, og BYD Co í Kína hafa sett fram plan um þróun og smíði á rafmagnsbíl fyrir kínverskan markað. Undirritað hefur verið samkomulag um stofnun sameiginlegs fyrirtækis undir nýju tegundarheiti. Er dæmið bakkað upp af milljarðamæringnum Warren Buffett. Lið verkfræðinga á vegum þessara fyrirtækja hafa þegar hafið störf við verkefnið og unnið er að byggingu tæknimiðstöðvar í Kína.

Daimler og BYD munu leggja sameiginlega 86 milljónir dollara í þetta dæmi til að byrja með sem heitir Shenzhen BYD Daimler New Technology Co.

„Við munum í sameiningu leggja hart að okkur við að koma þessu nýja rafknúna ökutæki á markaðinn eins fljótt og mögulegt er,” segir Wang Chuanfu stjórnarformaður BYD í yfirlýsingu frá félaginu.

Kemur þetta í framhaldi af auknum áherslum kínverskra yfirvalda um þróun “hreinna bíla” og áætlunar um að á árinu 2015 verði salan á rafbílum komin í 500 þúsund eintök.

Fjöldi annarra bílaframleiðenda hefur uppi áætlanir um að smíða rafbíla í Kína. Sumir ætla þó að bíða og sjá hvernig innviði kínversk yfirvöld muni koma upp fyrir notkun slíkar ökutækja í landinu. Fyrirhugað var að kynna slíka uppbyggingu í janúar 2010, en nú er búist við að það verði gert í sumar.

Ef allt gengur eftir gæti kínverski rafbílamarkaðurinn orðið sá stærsti í heimi að því er haft var eftir Carlos Ghosn forstjóra Nissan Motror Co. og Renault SA í Detroit í vikunni.