Þann fimmtánda apríl síðastliðinn sótti bandaríska fyrirtækið American Dairy Queen Corporation, sem rekur fjölda skyndibitastaða m.a. undir nafninu Dairy Queen, um skráningu sama vörumerkis hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá bandaríska fyrirtækinu þá er það stefna þess að skrá vörumerkið á sem flestum mörkuðum, en ekki sé hægt að lesa neitt í umsóknina um að til standi að opna hér veitingastaði.

Ís undir nafni Dairy Queen var fyrst seldur hér á landi þann 3. júní 1954 og voru ísbúðirnar reknar hér um áratuga skeið.

Undanfarið hefur komið í ljós aukinn áhugi bandarískra fyrirtækja á því að opna hér starfsstöðvar, en til stendur að opna hér stórverslun undir nafni CostCo, Dunkin' Donuts munu ætla að opna hér sextán veitingastaði og þá á að opna á landinu þrjá veitingastaði undir nafni Denny's.